Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Innilega til hamingju
25.6.2008 | 10:38
Ég þekki Guðna Má ekki af neinu nema góðu einu. Kópavogsbúar eru heppnir að hafa fengið hann í sína þjónustu.
Til hamingju Guðni:=)
Guðni Már Harðarson valinn í Lindaprestakalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Takk fyrir mig segir Matti byggir & Vantrú.is
24.6.2008 | 11:12
Takk þið öll sem kommenteruðu á síðustu færslu. Takk SG fyrir þitt komment, vonandi að þú náir að hafa áhrif í þinni kennslu. Takk Jens Guð.....gaman að fá komment frá einum vinsælasta bloggara landsins. Takk Bakemono/Andrés, heiðurinn er minn:=) Varðandi brúðkaupið að þá er allt á réttri leið. Takk mama G, mikið rétt að það var töluvert um einelti í okkar tíð þarna uppá skaga, vonandi að það horfi til betri vegar í dag.
Ég er búinn að vera Matti byggir síðan á sunnudaginn. En þá með hjálp Braga og Palla bró tók ég mig til og byrjaði að byggja vegg inní stofunni minni, en við erum semsagt að búa til auka herbergi. Og til að gæta allrar sanngirni að þá gerðu Bragi & Palli mest í þessu, .þ.e.a.s. að setja grindina saman og upp.....ég horfði á og skrúfaði nokkrar skrúfur og sagaði nokkar spítur. En núna er ég einn í því að setja spónarplöturnar á vegginn, á von á Braga í aðstoð með það á eftir.
En við semsagt ákváðum að gera herbergi fyrir hana Gúu Dögg sem bara stækkar og stækkar og verður fallegri og skemmtilegri með hverjum deginum, en hún er nú alveg að verða 10 mánaða. Hún er farinn að tala nokkur orð og farinn að labba með húsgögnum ( og meiða sig í samræmi við það ) Einnig er hún kominn með tvær tennur í neðri góm, voða pæja. Hún er búin að vera núna í slatta tíma hálfan daginn alltaf hjá henni Helgu í pössun og er sko alveg að fíla það í tætlur.
En Gúa Dögg fær ekki herbergið alveg strax því að á næsta mánudag koma þau Randi og Nicolaj frá Danmörku í heimsókn, og verða hjá okkur fram yfir brúðkaupið.
Talandi um brúðkaupið að þá er það bara á næsta leiti, eða innan við 20 daga.....úff.....en það er allt að verða klárt sem betur fer. Og meðan ég man, en þá vorum við í brúðkaupinu hjá Daða og Huldu á laugardaginn....innilega til hamingju bæði tvö....virkilega vel heppnað og fallegt brúðkaup.
Síðan er ég kominn í sumarfrí/atvinnuleyt, því að ég lét af störfum mínum í Bústaðakirkju núna á föstudaginn síðasta. Ég átti góðan tíma þar og naut mín vel en nú er komið að öðrum kafla í mínu lífi.....við hvað veit ég ekki alveg:=)
Og að lokum að þá verð ég að minnast á félagskapinn vantrú.is en ég er aðeins búinn að vera að ræða við þá á spjallsíðum þeirra. Það sem er mér efst í huga er hvað þeir verða auðveldelga hörundsárir þessrir vantrúarseggir og eru fljótir til að kalla menn nöfnum og eru með dónaskap. M.a. var ég kallaður sjúkur og siðblindur og hafa aðrir lent í svipuðu orðaskaki.
Formaður vantrúar ( nafni minn ) virðist sjá rautt þegar minnst er á trúboð og þjóðkirkjuna og hann sér ekkert gott við trú,þjóðkirkjuna,trúboð. Hatur hans er svo mikið að hann blindast á það sem er fallegt. En einnig er mér spurn afhverju það er svona mikil heift í því að ráðast eingöngu á kristna trú? Ekki það að ég sé að segja að það eigi að vera að ráðast á nokkra trú eða trúarhópa en afhverju er einblínt á þjóðkirkjuna í þessum efnum?
Ég held að það segi sig mest sjálft að meirihluti þjóðarinnar sé sátt við þjóðkirkjuna og presta landsins. Það kannski sýnir sig ekki alltaf í messu sókn, en það sýnir sig í þeirri eftirspurn sem þeir þurfa að sinna. Prestar landsins eru yfirleitt mjög uppteknir og mikil aðsókn í viðtöl til þeirra. Það er það sem gildir. Fólkið í landinu vill þetta og kallar eftir þessu.
Ps: Ég er byrjaður að skrifa fyrir fotbolti.net......massa gaman
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
Viðtal í blaði Regnbogabarna
20.6.2008 | 23:52
Í vor var tekið við mig viðtal sem birtist í blaði sem samtökin Regnbogabörn gefa út. Mig langaði til þess að birta það hér og ákvað að gera það núna í kvöld. Hægt er að nálgast blaðið hjá Regnbogabörnum.
(inngangur) Ég varð fyrir einelti meira og minna alla mína grunnskólagöngu, segir Matthías Freyr Matthíasson. Hann er 28 ára gamall, er í sambúð og á leiðinni upp að altarinu með Elísabetu Thoroddsen, en þau eiga hálfs árs gamla dóttur, Gúu Dögg. Þau búa í Hafnarfirði.
Ég er fæddur og uppalinn á Akranesi og eineltissaga mín byrjaði þegar ég var í fyrsta bekk í grunnskóla, kannski eitthvað fyrr án þess að ég hafi beint áttað mig á því. En þetta lýsti sér aðallega í því fyrstu árin að ég var rosalega mikið utanveltu og jafningjarnir gáfu mér hreinlega engan séns.
Var einhver sérstök ástæða fyrir eineltinu?
Bara að ég vissi það, en ég tel núna þegar ég lít tilbaka, og í ljósi þess hvernig ég hef gert upp fortíð mína, að ég hafi ekki verið neitt sérstaklega auðveldur viðureignar. Ég var hrikalega ofvirkur ...
Og kannski með athyglisbrest líka?
Nei, ég var ekki með athyglisbrest, því ég sökkti mér mikið í bækur. Þær voru mín leið til að halda sönsum. Ég lærði mjög snemma að lesa, var orðinn fluglæs sex ára. En ég var kolofvirkur og það fór mikið fyrir mér og ég kjaftaði mikið og spann upp sögur. Ég bjó til einskonar hliðarheim sem ég dvaldi mikið í, þar sem allt það leiðinlega og ljóta var ekki til staðar, heldur var ég einhvern veginn vinsælastur, flottastur og bestur.
Í hliðarheiminum
Hvað gerðist í þessum hliðarheimi?
Í rauninni allt sem mér datt í hug og ég gerði ekki alltaf greinarmun á þeim heimi og raunveruleikanum. Ég sagði þannig oft sögur sem höfðu gerst þar en ekki í raunveruleikanum til að gera mig stærri og flottari í augum jafningjanna. Það er mjög sérstakt að hugsa til þess hvernig þetta var. Ég var hafður útundan, strítt og ekkert sóst eftir félagsskap mínum og ég átti mjög erfitt með að brjótast inn í hópinn. Eins og margir þekkja þýðir það að vera strákur á Skaganum að vera á fullu í fótbolta, þess er hálfpartinn krafist af maður sé góður í fótbolta, og mínir hæfileikar lágu ekki á því sviði. Ég reyndi það en gekk ekki.
Leið þér illa?
Já, stundum leið mér mjög illa. Samt leið mér vel við lestur bóka og í hliðarheimi mínum. Ég held að ég hafi ekkert verið dapur krakki, miklu frekar að ég hafi verið ofurhress heldur en hitt.
Hvaða bækur lastu?
Í raun og veru allt sem ég komst yfir. Ég las alltaf þegar ég gat og var farinn að leita í bókasafn afa míns, því bæjarbókasafnið fullnægði ekki lengur lestrarþörfum mínum. Ég las til dæmis Öldin okkar frá a til ö þegar ég var tíu ára gamall, og bækur Halldórs Laxness og ævisögur ... Og Útkallsbækurnar, það skipti ekki máli, ef það var skemmtilegt þá las ég ...
Fjölskyldan og skólinn
Hvernig tók fjölskyldan á eineltinu? Og skólinn ?
Því miður var það þannig á þessum tíma að orðið einelti var ekki til. Þetta var bara stríðni og eitthvað sem maður átti að leiða hjá sér. Foreldrar mínir gerðu sér held ég aldrei grein fyrir hvað var í gangi. Þegar ég byrjaði fyrst að segja frá því að hlutirnir væru ekki alveg eins og þeir áttu að vera þá var reynt að tala við foreldra þeirra sem lögðu mig í einelti, og í stað þess að laga málin varð þetta bara ennþá verra. Eftir það hélt ég foreldrum mínum alveg fyrir utan þetta, eða þangað til ég var orðinn 17 eða 18 ára og þá fór ég að kenna þeim um hvernig hlutirnir voru, fyrir að hafa ekki tekið rétt á málum. Og skólayfirvöld brugðust algerlega, kennarar mínir tóku sumir þátt í eineltinu. Ég man reyndar eftir Guðmundi Þorgrímssyni sem kenndi mér í gagnfræðaskólanum, hann er einn besti kennari sem ég hef kynnst, en þá voru hlutirnar bara orðnir þannig að hann gat ekkert gert í málunum. Það er kannski ljótt af mér að setja grunnskólakennara mína alla undir þennan hatt, en það er samt staðreynd að flestir þeirra voru algerlega vanhæfir til að sinna sínu starfi. Og yfirvöld skólans í sjálfu sér líka, því ég var ekki eini einstaklingurinn í mínum árgangi sem lenti í þessu. Það var miklu fremur litið á okkur sem vandamálið, en hitt. En ég veit að í dag hafa málin breyst stórkostlega til batnaðar hvað þetta varðar uppi á Skaga, í báðum grunnskólunum, þeir eru nú með sterka og ákveðna eineltisstefnu í gangi.
Áttirðu þér kannski vini meðal þeirra sem voru líka lagðir í einelti?
Ég var ekki alveg einn. Ég átti mína æskuvini, en margir þeirra höguðu sér reyndar ekki alltaf eins og vinir ættu að gera. En á þessum tíma skipti það engu máli. Ég á tvo þrjá vini úr grunnskóla sem ég held ennþá sambandi við. Það var kannski einn sem var jafnmikið utanveltu og ég, sem gat talist vinur minn.
En varstu þá ekki oft svekktur út í vini þína?
Jú, oft var ég það. Mér fannst þeir bregðast mér oft og ég lokaði á suma alveg eftir grunnskólann.
Hvaða áhrif hafði þetta á námið?
Ég er ekki með alla grunnskólamenntunina. Ég náði ekki öllum samræmdu prófunum, til dæmis í stærðfræði og dönsku. Svo skólagangan fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan hjá mér.
Unglingsárin
Voru unglingsárin þér þá ekki erfið? Margir í þessum sporum byrja að drekka áfengi ótæpilega ...
Þegar ég byrjaði að drekka var það ekki afleiðing eineltisins, heldur miklu fremur lausn frá því. En ég tók alveg mína törn, en vil kannski ekki fara nánar út í þau mál en get sagt það að ég þurfti að gera upp fortíðina mína og ég gerði það.
En þú talar um að hafa þurft að gera upp fortíðina, sem hlýtur þá að stórum hluta að vera eineltið, ekki satt?
Jú, það var rosalega mikil heift sem bjó í mér, mikið hatur í garð ákveðinna einstaklinga og yfirvalda. Það skemmdi mikið fyrir mér og ég upplifði mig sem mikið fórnarlamb. Sem ég var ekki, ég var ekki fórnarlamb en ég þurfti að læra að fyrirgefa þeim sem lögðu mig mest í einelti og líka að fyrirgefa sjálfum mér. Og sjá hlutina í réttu samhengi.
Þýðir það að þú sjálfur hafir átt þátt í því að þú varst lagður í einelti?
Já, algjörlega. Ég brást við hlutum á allt annan hátt en ég hefði átt að gera. Ég var náttúrlega krakki og því varla hægt að búast við öðru. En þegar ég öðlaðist aldur og þroska, þar sem ég átti að geta séð hlutina í réttu ljósi og bregðast við samkvæmt því, þá gerði ég það ekki. Ég leyfði reiðinni í staðinn að vaxa, og hatrinu. En ég var ekki auðveldur einstaklingur og var þess vegna auðvelt skotmark ekki að það réttlæti eitthvað eineltið, því einelti á aldrei rétt á sér. En það er alveg ljóst að ég væri ekki sá einstaklingur sem ég er í dag ef ég hefði ekki gengið í gegnum þessa hluti. Og ég hef sem betur fer fengið að sjá það.
Hvernig fékkstu útrás fyrir reiðina? Lentirðu til dæmis í slagsmálum?
Nei, ég talaði hins vegar mikið um hvað ég væri reiður og hvað ég ætti bágt. Einnig vorkenndi mér mjög mikið, og reyndi að næla mér í samúð allstaðar. Það var í rauninni ekki fyrr en ég fór í gegnum 12 spora kerfið að ég áttaði mig og sá hlutina í réttu ljósi, þá var ég orðinn 22 ára gamall.
Allar væntingar brostnar
Og hvernig varstu þá?
Ég var þá kominn á allt annan stað í lífinu en ég vildi vera á. Allar mínar væntingar og hugmyndir um sjálfan mig voru brostnar. Ég bjó hjá foreldrum mínum og vann á pítsustað hjá bróður mínum. Skuldaði fullt af peningum og hafði ekki efni á þeim skuldum, var illa staddur félagslega séð, átti sárafáa vini, hélst ekki í vinnu til lengri tíma og klúðraði einhvern veginn öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Það var ekki þannig sem ég hafði hugsað mér að verða 22 ára gamall.
Hvað hafðirðu hugsað þér að verða?
Leikari, og þær hugmyndir voru auðvitað kolbrenglaðar þegar ég var krakki. Snerust um að meika það í Hollywood og vera dýrkaður og dáður um allan heim. Búa á sundlaugarbakka umvafinn flottum gellum og allur sá pakki. Ég hef þroskast frá þessum hugmyndum, en þetta var algjörlega mín sýn sem krakki, segir Matthías og hlær.
En þú hefur reyndar fengist talsvert við leiklist um dagana ...
Jájá, og hún er enn þá efst á óskalistanum. Ég tel að leiklistin og bækurnar hafi bjargað mér í gegnum erfiðustu tímabil ævinnar. Ég lék í skólaleikritum og svo lék ég í nokkrum verkum með Skagaleikflokknum. Ég hef leikið í tveimur bíómyndum, Benjamín dúfu eftir Gísla Erlingsson og Gemsum eftir Mikael Torfason.
Þú fluttir til Reykjavíkur 17 ára og bjóst þar um tíma; varstu þá að flýja eineltið?
Já, ég flutti að heiman, en var alltaf samt með annan fótinn hjá foreldrum mínum og átti þar mitt athvarf um lengri og skemmri tíma, þangað til fyrir nokkrum árum.
Og hvað hefurður verið að vinna við?
Í raun og veru allt. Það einkenndi mig líka að vera sífellt að prófa eitthvað nýtt og gefast fljótlega upp. Ég hafði aldrei úthald og nennu. En aðalinnkoma mín undanfarin ár hefur verið af vinnu með börnum og unglingum, og síðastliðin fimm sex ár hef ég verið nokkuð stöðugur í því sem ég hef verið að gera. Ég byrjaði sem æskulýðsleiðtogi hjá KFUM og K á Snæfellsnesi. Ég var 17 ára og þetta var sjálfboðavinna. Síðan var ég í barna og unglingastarfi kirkjunnar á Akranesi og árið 2004 varð ég forstöðumaður menningarhúss ungs fólks í Hveragerði. Eftir það bauðst mér að vinna á meðferðarheimili fyrir börn með félagsleg vandamál og hegðunarvandamál. Svo fór ég að vinna á tilsjónarheimili fyrir unglinga í Reykjavík og núna er ég æskulýðsfulltrúi í Bústaðakirkju.
Er trúaður
Þessi ferill bendir nú til þess að þú sért trúaður ...
Já, og trúin hefur hjálpað mér mikið í gegnum árin. Ég tók alltaf þátt í starfi KFUM þegar ég var krakki og fór í Vatnaskóg á sumrin, sem ég tel vera besta stað á jarðríki. Ég átti alltaf mína barnatrú, en svo þegar ég var 17 ára upplifði ég eitthvað sem sumir myndu kalla heilagan anda og aðrir að frelsast og enn aðrir ofskynjun eftir því hvernig fólk vill túlka það. Ég upplifði bara Guð á minn hátt og ...2
Geturðu lýst þeirri upplifun nánar?
Nei, það er engin leið að útskýra þetta. En þetta gerðist eins og að smella fingri. Ég var í Vatnaskógi á skólamóti KSS, Kristilegu skólasamtakanna, þetta var á föstudaginn langa og það var bænastund. Og skyndilega fann ég eitthvað gerast án þess að ég næði að skilja eða meðtaka beint hvað það væri á þeim tíma. Og það tók mig nokkur ár að skilja það til fulls fyrir sjálfan mig.
Hvernig hefur samband þitt verið við fjölskylduna í gegnum árin?
Mestan part mjög gott, en ég kenndi foreldrum mínum mikið um eineltið á tímabili og reiðin mín bitnaði talsvert á þeim. Ég lét hluti flakka sem ég sé eftir í dag og vona að ég hafi náð að bæta fyrir. Þau urðu einhvern veginn fyrir reiðinni bara ... En samband mitt við foreldra mína er í dag og hefur verið í mörg ár mjög gott, tölum saman daglega. Ég á tvo bræður, annar þeirra níu árum eldri en ég og við erum mjög góðir vinir og í daglegu sambandi. Hinn er fjórum árum eldri og býr núna í Færeyjum og skiljanlega ekki eins mikið samband við hann, en við erum samt fínir vinir.
Og svo hefurðu sjálfur stofnað fjölskyldu ...
Já, við Elísabet erum búin að vera saman í bráðum tvö ár. Við eigum yndislega dóttur og erum rosalega samrýmd og góðir vinir... Beta er klippari á Skjá einum.
Hver er framtíðarsýn þín?
Ég óska þess að ég fái tækifæri til að læra það að verða leikari. Ég vona að ég fái tækifæri til að halda áfram að þroskast og dafna og takast á við föðurhlutverkið og sinna því almennilega ... Ég er núna í fæðingarorlofi og þegar því lýkur mun ég snúa aftur til starfa í Bústaðakirkju.
Sameinast gegn einelti
Ertu bitur yfir hlutskipti þínu í æsku?
Nei, langt í frá. Auðvitað vildi ég að þetta hefði verið öðruvísi og óska engum að verða fyrir einelti eða öðrum erfiðleikum í lífinu. En ég tel mig vera það sem ég er í dag vegna fortíðarinnar og ég tel mig vera frambærilega manneskju.
Reynslan hlýtur að nýtast þér í starfinu með unglingunum?
Já, ég skil nákvæmlega hvað þeir eru að glíma við. Ég get séð sjálfan mig í mörgum krökkum, veit hvað er í gangi og vil geta gert eitthvað ...
Hvað er barn lengi að veltast í þessu aldursins vegna áður en það getur áttað sig og farið að gera eitthvað í sínum málum sjálft?
Auðvitað er það misjafnt, en ég myndi segja að í 10unda bekk ættu krakkar að vera farnir sjá þetta. Gelgjuskeiðið er mjög erfitt en eftir það á fólk að geta áttað sig á þessu. Yngri krakkar geta það ekki ég gerði það ekki. Ég var 19 ára þegar ég skildi að ég hafði orðið fyrir einelti í æsku annars voru þetta bara vondu strákarnir ...
Eru þessi mál að þróast til betri vegar í samfélaginu eða verður þetta alltaf jafn erfitt viðureignar?
Ég held að alltaf sé jafn erfitt að takast á við einelti. Og ég held að það þurfi að koma á einni allsherjar aðgerðaáætlun gegn einelti fyrir allan grunnskólann, alla skólana í landinu. Að það sé virkt teymi í öllum skólum .... Svo skiptir miklu að foreldrar þekki einelti og geti bakkað krakkana sína upp. Ég held að þetta sé að breytast, held að einelti sé grófara og faldara á óræðan hátt og það verður alltaf þannig að þessir veiku verði teknir fyrir. Ég óttast mjög að nýbúar eigi eftir verða mikið fyrir barðinu á einelti ... Ég efast þannig um að einelti sé að minnka. Því miður ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ekki sáttur!
11.6.2008 | 09:23
Ég held að stjórn ÍA verði að gefa út yfirlýsingu í dag, hvort sem þetta er satt eða ekki. Ef að satt reynist, að þá til þess að gefa út hver taki við en ef þetta er lygi að þá til þess að drepa þessa umræðu fyrir fullt og allt.
En ef þetta er satt að þá er það spurning hvort að gengi liðsins míns í sumar sé út af þessu?
Guðjón Þórðarson til Hearts? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fullur í kastljósi.....hló upphátt við að hlusta á þetta
10.6.2008 | 13:46
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
John McCain: No, You Can't
10.6.2008 | 09:51
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)