Hvíl í friði kæra vinkona

Þær voru þungar fréttirnar sem ég fékk í síðustu viku um að mín kæra vinkona hún Susie væri búin að kveðja þennan heim, litli ljóshærði gáfaði engillinn er farin úr þessum heimi. Lífið er svo sannarlega ekki alltaf sanngjarnt og maður stendur ráðþrota og dofinn gagnvart svona atburðum. Ung og falleg og hæfileikarík stelpa tekin svona ung í burtu.

Ég kynntist Susie fyrir u.þ.b. 3 árum síðan og mér er það minnistætt hvernig hún brosti svo fallega og tók í höndina á mér og kynnti sig og frá þeirri stund tókst með okkur vinátta. Mér þótti eftirtektarverkt hvernig Susie tók hverjum og einum eins og hann var og varð ég ekki var við fordóma eða annað sem hrjáir svo marga sem lifa á þessari jörð. Að hennar mati áttu allir sama rétt á að vera hér.

Susie var einstaklega vel af Guði gerð. Hún hafði mikinn húmor, fallegan persónuleika og einstaklega litríkan og sérstakan fatastíl sem passaði svo vel við hana. Hún var einnig vel lesin og var einstaklega klár og hæfileikarík og bar af sér þann þokka að hún væri í raun og veru eldri en hún var. Við fórum eitt sinn í ferðalag austur á land rétt eftir að við kynntumst, þar ræddum við um allt milli himins og jarðar og komumst við meðal annars að því að leiðir okkar lágu ekki saman í pólitík, og áttum við eftir að ræða það þó nokkuð oft eftir það en alltaf í góðu.

Ég dáðist að henni fyrir það að skella sér í Menntaskólann Hraðbraut og klára stúdentsprófið á einu ári og það með stæl, og á sama tíma var hún að vinna á Landspítalanum. Þvílíkur kraftur og dugnaður. Ef það væri síðan ekki nóg að þá hringdi hún í mig síðasta vor vitandi það að ég væri að fara í inntökuprófin fyrir Leiklistardeild listaháskólans og sagði mér það að hún ætlaði að sækja um þar bara svona uppá djókið. Hún gæti allavegana sagt að hún hefði þá prófað það líka.

Við áttum í kringum það góðan tíma saman þar sem við æfðum okkur fyrir framan hvort annað og gerðum okkur að fíflum og okkur fannst það báðum jafn fyndið. Susie gerði það af krafti og dugnaði eins og allt annað og komst áfram í annað þrep inntökuprófanna sem er betri árangur en margir hafa náð og með því sýndi hún mér hvað hún var virkilega hæfileikarík og fjölhæf.

Hún grét það ekki að komast ekki inn, heldur ákvað að einbeita sér að því að komast í læknanám í haust. Mér þykir mikill heiður að hafa fengið að vera vinur hennar og ég veit að Faðirinn tekur vel á móti þessum fallega og góðhjartaða engli sem nú er farinn. Hennar verður sárt saknað.

Elsku Susie, ég mun alltaf minnast þín og þíns fallega bros og stóru augnanna þinna. Farðu í friði mín kæra. Við hittumst seinna:*

Votta fjölskyldu þinni og aðstandendum innilegrar samúðar  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband